Forsenda þess að íþróttafólk geti hámarkað afkastagetu og þjálffræðilega aðlögun er að það sé við sem besta heilsu og lífeðlisfræðileg starfsemi virki sem skyldi. Minnkuð skilvirkni hjarta- og æðakerfis er dæmi um möguleg bein áhrif RED-s á afkastagetu, sem getur meðal annars komið fram í minnkuðu úthaldi. Þá getur ófullnægjandi andleg og líkamleg endurheimt haft neikvæð áhrif á vöðvamassa og virkni. Áhrif markvissrar þjálfunar eru að mörgu leyti háð eðli og sértækni þjálfunar sem geta meðal annars falist í aukinni hæfni líkamans til geymslu á glýkógeni og/eða til að hámarka nýmyndun vöðvapróteina, en skortur tiltækrar orku vinnur þvert gegn slíkum markmiðum.4,7,12 Loks má nefna að afbrigðileg hormónastarfsemi og minnkuð beinþéttni eykur líkur á veikari beinvef og álagsbrotum52 auk þess sem skert virkni ónæmiskerfis getur leitt til tíðari veikinda, svo sem sýkinga í efri hluta öndunarvega.59-61 Meltingareinkenni sem geta komið fram í RED-s eru meðal annars seinkuð magatæming og hægðatregða62 sem getur haft verulega neikvæð áhrif á líðan og frammistöðu í æfingum og keppni. Meltingarónot og truflanir bitna meðal annars á afkastagetu og endurheimt, og óþægindi tengd meltingu eru algeng orsök þess að íþróttafólk nær ekki að ljúka keppni.63 Fáar rannsóknir hafa verið gerðar á beinum áhrifum RED-s á árangur í tilteknum íþróttagreinum en fleiri byggja á niðurstöðum spurningakannana eða skoða tengsl RED-s við röðun einstaklinga á styrkleikalistum. Þær rannsóknir benda til víðtækra áhrifa á árangur.56,64-66 Verri taugavöðvavirkni (neuromuscular performance), mæld sem vöðvastyrkur og úthald kringum hné, hefur greinst hjá úthaldsíþróttakonum með tíðateppu samanborið við þær sem hafa eðlilegar tíðir. Verri taugavöðvavirkni var þar tengd minnkuðum fitufríum vöðvamassa í þeim fótlegg sem var prófaður, auk lægri styrks glúkósa, estrógens og T3 en hærri styrks kortisóls í blóði.67 Það er í nokkru samræmi við niðurstöður Vanheest og félaga65 sem gefa vísbendingar um slakari árangur íþróttakvenna með blæð- ingatruflanir en þeirra sem höfðu eðlilega virkni eggjastokka og tíðahrings. Þó ekki sé hægt að fullyrða um orsakasamhengi milli