Íslenski landsliðsmaðurinn Emil Hallfreðsson er búinn að skrifa undir hjá ítalska C-deildarliðinu Padova en þetta kemur fram á 433.is í dag. Emil, sem er 35 ára gamall, hefur verið án félags frá því í sumar en hann var síðast á mála hjá Udinese í Seríu A. Hann hefur æft með ítalska C-deildarliðinu Padova síðustu daga en samkvæmt frétt 433.is er Emil búinn að skrifa undir samning. Emil hélt sér þá í standi og æfði með FH-ingum hér heima en nú er ljóst að hann kemur til með að snúa aftur í ítalska boltann. Emil hefur spilað með Reggina, Hellas Verona og Frosinone á Ítalíu. Padova er í 4. sæti í B-riðli C-deildarinnar en næsti deildarleikur liðsins er 12. janúar gegn Fano.